Loading...
Larger font
Smaller font
Copy
Print
Contents
Frá Ræðustóli Náttúrunnar - Contents
 • Results
 • Related
 • Featured
No results found for: "".
 • Weighted Relevancy
 • Content Sequence
 • Relevancy
 • Earliest First
 • Latest First

  “Sæstu fyrst við bróður þinn.”

  Kærleikur Guðs gjörir meira en að halda manninum frá því að aðhafast það, sem ilt er; hann er framkvæmdasöm meginregla, lifandi uppspretta, er ávalt streymir öðrum til blessunar. Ef kærleikur Krists býr í hjarta voru, þá er það ekki einungis að vjer erum lausir við að bera hatur til meðbræðra vorra, heldur munum vjer leitast við að auðsýna þeim kærleika á sjerhvern hátt. Jesús sagði: “Ef þú ert að bera gáfu þína fram á altarið, og minnist þess þar, að bróðir þinn hefir eitthvað á móti þjer, þá skil gáfu þína þar eftir fyrir framan altarið, og far burt, sæstu fyrst við bróður þinn, og kom síðan og ber fram gáfu þína!” Fyrirmyndunarfórnirnar áttu að sýna trú þess, sem fórnaði, sýna að hann tryði því, að hann væri orðinn aðnjótandi Guðs náðar og kærleika fyrir Krist; en ef einhver talaði um að hann tryði því, að Guð hefði fyrirgefið honum og elskaði hann, en hugarfar sjálfs hans væri kærleikssnautt, þá væri það einungis leikaraskapur.FRN 78.3

  Ef einhver, sem telur sig þjóna Guði, gjörir bróður sínum rangt til eða vinnur honum mein, þá gefur hann hlutaðeiganda ranga hugmynd um lunderni Guðs og verður að kannast við yfirsjón sína; hann verður að kannast við hana sem synd, til þess að geta verið í samræmi við Guð. Bróðir vor kann að hafa gjört oss meira rangt til en vjer honum; en þetta gjörir ekki vora ábyrgð minni. Ef vjer, þegar vjer komum fram fyrir Guð, minnumst þess, að einhver hefir eitthvað á móti oss, þá verðum vjer að skilja gáfuna — hvort sem það er bæn, þakkargjörð eða sjálfsviljafórn — eftir, og fara til bróður vors, sem vjer erum ósáttir við, og í auðmýkt játa synd vora og biðja fyrirgefningar.FRN 79.1

  Ef vjer höfum á einhvern hátt haft af bróður vorum eða svikið hann, eigum vjer að greiða honum bætur fyrir það. Ef vjer höfum óafvitandi borið falskan vitnisburð, ef vjer höfum haft orð hans rangt eftir, eða spilt áhrifum hans, þá ber oss að fara til þess, er vjer höfum talað um hann við, og taka aftur alt ranghermi vort.FRN 79.2

  Ef missætti bræðra á meðal væri ekki gjört heyrum kunnugt, en þeir töluðu um málið sín á milli í fullri einlægni og hreinskilni og með kristilegum kærleika, hve miklu illu mundi þá verða afstýrt! Hversu mörg beisk rót er saurgar aðra. þá mundi verða að engu, og hve innilega Guðs börn mundu þá verða sameinuð í kærleika hans!FRN 79.3